Innlent

Þingmaður krefur Isavia um svör vegna hvalaauglýsinga

Mörður Árnason alþingismaður, formaður umhverfisnefndar og fulltrúi í samgöngunefnd, sendi forstjóra Isaviu ofh., opinbera fyrirspurn í dag vegna umdeildra auglýsinga sem voru fjarlægðar í Leifsstöð á dögunum. Auglýsingarnar voru á vegum Alþjóða-dýraverndarsamtakanna IFAW á Íslandi, og voru gagnrýndar harðlega af hvalveiðimönnum sem sökuðu samtökin um smekklausar árásir.

Auglýsingarnar héngu uppi í komusal flugstöðvarinnar en á þeim voru meðal annars rituð slagorð á ensku sem gætu hljóðað svo á íslensku: Hittið okkur. Ekki borða okkur.

Fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar er beint að Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia. Meðal þess sem Mörður spyr er: „Hver tók ákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og við hverja þeirra?"

Sjálfur segir Mörður á vefsvæði sínu á Eyjunni, þar sem hann birtir fyrirspurnina, að hún sé tilkomin vegna óskýrra svara upplýsingafulltrúa Isavia í Fréttablaðinu í dag, en þar neitar fyrirtækið að senda siðareglur varðandi auglýsingar, í heild sinni til blaðsins.

Hér fyrir neðan má lesa fyrirspurn þingmannsins í heild sinni:

Til Björns Óla Haukssonar forstjóra Isaviu ohf.

Í tilefni af fréttum um auglýsingar á vegum Alþjóða-dýraverndarsamtakanna, IFAW, í Leifsstöð óska ég eftir svörum við þessum spurningum:

Hvaða reglur gilda um auglýsingar sem Isavia selur í Leifsstöð?

Hver tók ákvörðun um að þessar auglýsingar brytu í bága við reglur, og við hverja þeirra?

Hver önnur tilvik eru um að Isavia hf. hafi rift samningum um auglýsingar í Leifsstöð?

Vinsamlegast svarið sem fyrst, í tölvupósti á netfangið, mordur@althingi.is, eða með bréfi til mín á vinnustað, Alþingi, 150 Reykjavík.

Reykjavík 30. júní 2011

Mörður Árnason alþingismaður, formaður umhverfisnefndar, fulltrúi í samgöngunefnd.


Tengdar fréttir

Ekki í fyrsta sinn sem birtingum er neitað

Isavia hefur nú endurgreitt dýraverndunarsamtökunum International Fund of Animal Welfare (IFAW) og Samtökum hvalaskoðunarfélaga leigu á auglýsingaplássi í Leifsstöð. Auglýsingarnar voru teknar niður þar sem þær voru taldar stangast á við siðareglur Isavia ohf. um birtingu auglýsinga. Isavia neitaði að senda Fréttablaðinu siðareglurnar í heild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×