Erlent

Hjónaband samkynhneigðra: Pólitískur frami og trúarlegt áreiti

Hafsteinn Hauksson skrifar
Stærsta dragdrottning heims?
Stærsta dragdrottning heims?
Embættismenn í New York hófu strax í gær að búa sig undir flóðbylgju af brúðkaupum, en hjónaband samkynhneigðra var lögleitt í ríkinu á föstudag.

Ef embættismenn í New York ríki í Bandaríkjunum geta lært eitthvað af hinum fimm ríkjum landsins sem hafa viðurkennt rétt samkynhneigðra til að gifta sig, þá er það að fyrstu dagarnir á sýslumannsskrifstofunni geta orðið brjálaðir.

Haft er eftir skjalaverði New York borgar að starfsfólk hjúskaparskrifstofunnar þar fari nú í gegnum sérþjálfun svo þau ráði við mikinn fjölda brúðhjóna á skömmum tíma. Samkvæmt manntali búa um fjörutíu og fimm þúsund homma- og lesbíupör í ríkinu, en búist er við að þúsundir þeirra fái á sig hnapphelduna fyrstu vikurnar eftir að lögin ganga í gildi undir lok næsta mánuðar.

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um lagasetninguna, ekki síst því fjórir repúblikanar kusu þvert á flokkslínur og slógust í hóp með 29 demókrötum á löggjafarþingi New York þegar frumvarpið var samþykkt.

Haft er eftir einum þeirra, þingmanninum Mark Grisanti, að líklegast hafi hann framið pólitískt sjálfsmorð með að styðja málið, en það reyndist honum afar erfið ákvörðun, jafnvel eftir mikla rannsóknarvinnu sem hann lagðist í. Aðrir spá því þó að þingmennirnir hafi unnið sér inn margfaldan þann stuðning hjá frjálslyndum Bandaríkjamönnum sem þeir töpuðu hjá íhaldssömum.

Pólitískir fréttaskýrendur fullyrða til dæmis að ríkisstjórinn Andrew Cuomo, sem lagði málið fram og keyrði það í gegnum ríkisþingið, hafi á einni nóttu stimplað sig inn sem líklegan forsetaframbjóðanda Demókrata fyrir forsetakosningarnar 2016. Hann hafi skorað stig hjá frjálslyndustu flokksmönnunum, sem jafnan hafa mikil ítök í forkosningum flokksins.

Þó eru ekki allir jafnánægðir með nýju lögin. Fulltrúar kaþólikka í ríkinu hafa fordæmt þau líkt og fréttastofa hefur greint frá. Þá bárust í dag fregnir af því að trúaröfgahópur sem kennir sig við baptistakirkjuna í Westboro hafi boðað komu sína á gleðigöngu New York borgar sem fram fer í dag, og hyggst áreita samkynhneigða vegna nýju laganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×