Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi eftir árás sem hefði getað leitt til dauða

Mynd úr safni
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir manni sem er talinn hafa brotist inn í íbúðarhús á Akranesi að morgni 26. júní síðastliðinn og veitti húsráðanda alvarlega áverka með járnbarefli. Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. júlí og vera í einangrun á meðan.

Hann er sakaður um húsbrot og alvarlega líkamsárás. Þrátt fyrir meiðsl, tókst þolandanum að yfirbuga árásarmanninn og halda honum föstum uns lögregla kom og handtók hann, en síðan var þolandinn fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem gert var að sárum hans. Hann hlaut meðal annars stóran skurð á höfði en var útskrifaður af sjúkrahúsinu að meðferð lokinni.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum segir að um sé að ræða alvarlega líkamsárás sem hefði getað leitt til dauða árásarþolans.

Ekki liggur ljóst fyrir hvað árásarmanninum gekk til, en hann var í annarlegu ástandi þegar hann framdi verknaðinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akranesi þekkjast mennirnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×