Innlent

Grunaður um tvær nauðganir - Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur staðfesti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um tvær nauðganir með um mánaðar millibili. Hann skal að minnsta kosti sæta gæsluvarðhaldi til 22. júlí.

Fyrri nauðgunin átti sér stað aðfaranótt föstudagsins langa síðastliðinn en þá er hann sagður hafa neytt stúlku til þess að hafa samfarir við sig og félaga sinn. Hinn maðurinn var þessu mótfallinn en maðurinn skipaði honum að taka þátt og hátaði hann báðum barsmíðum ef þau létu ekki að óskum hans.

Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa haft samfarir við stúlkuna en segir það hafa verið með samþykki allra. Vitnisburður stúlkunnar og hins mannsins þykir hinsvegar renna stoðum undir að um nauðgun hafi verið að ræða.

Fjórum dögum síðar er maðurinn sakaður um að hafa brotið gegn annarri stúlku á dvalarstað sínum í Reykjavík. Þau hafi áður verið í samskiptum á Facebook en ákveðið að hittast umrætt kvöld. Til að byrja með hafi stúlkan verið samþykk samræði við manninn en þegar leið á hafi maðurinn orðið mjög ógnandi og fór að beita hana ofbeldi.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms segir: „Hafi hann m.a. þvingað hana til munnmaka, endaþarmsmaka, rifið í hár hennar, bitið hana, slegið hana utanundir og klipið fast í brjóst hennar. Þá hafi hann sagt hana vera hans „eign" og hafi greipið þéttingsfast um háls hennar og hótað því að hálsbrjóta hana ef hún hefði aftur samræði við fyrrverandi kærasta sinn."

Við yfirheyrslur viðurkenndi maðurinn að hafa haft samræði við stúlkuna en fullyrðir að það hafi verið með hennar samþykki. Hann sagðist kannast við hafa verið „smá harkalegur" en hún hafi vitað hvað hann vildi, enda hafi hann sagt við hana að hann væri „ekki góður strákur og enginn trúboðagaur." Þá sagðist hann aðhyllast „rough sex" og hafi stúlkan mátt vita það.

Afbrotin sem maðurinn er grunaður um nema allt að 16 ára fangelsi. Í niðurstöðu úrskurðarins segir: „Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða, alvarleika sakarefnis og á grundvelli almannahagsmuna þyki nauðsynlegt að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans.“

Búist er við að aðalmeðferð í málinu fari fram 7. og 8. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×