Innlent

Foreldrar ánægðir með leikskóla borgarinnar

Mynd úr safni
Mikill meirihluti foreldra leikskólabarna í Reykjavík er ánægður með þá þjónustu sem boðið er upp á í leikskólum borgarinnar. Í nýrri viðhorfskönnun meðal foreldra kemur fram að 97% þeirra telja að börnunum þeirra líði mjög vel og séu ánægð í leikskólanum. Foreldrar eru einnig afar ánægðir með samskipti við starfsfólk leikskólanna og telja 95% þau vera góð.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í könnuninni, sem gerð var á vegum tölfræði- og rannsóknarþjónustu Menntasviðs, kom einnig fram að 92% foreldra telja leikskólanum vel stjórnað og er það umtalsvert meiri ánægja en mældist á árinu 2009 þegar síðast var gerð sambærileg könnun.

Viðhorf foreldra til leikskólastarfs í borginni hafa verið könnuð um árabil en slíkar kannanir eru afar mikilvægur mælikvarði á gæði fagstarfsins og þjónustu. Könnunin nú sýnir vaxandi ánægju foreldra með fagstarfið, viðmót starfsfólks, upplýsingamiðlun leikskólans og stjórnun.

Heildaránægja með leikskólastarfið er sambærileg og mældist á árinu 2009 en þeim sem eru mjög ánægðir með leikskólann hefur þó fjölgað úr 68% í 72%.

Líkt og fjallað hefur verið ítarlega um eru enn langir biðlistar inn á leikskólana og er unnið að því að reyna að tryggja börnum fæddum árið 2009 leikskólapláss á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×