Erlent

Fundu fimm milljónir í nýja húsinu sínu og skiluðu þeim

Ferrin-hjónin afhenda hér peningana.
Ferrin-hjónin afhenda hér peningana. Mynd/AP
Josh Ferrin sem keypti sér nýlega íbúð í borginni Utah í Bandaríkjunum brá heldur betur í brún þegar að hann fór að skoða háaloftið á íbúðinni. Þar voru um 45 þúsund dollarar, rúmlega 5 milljónir króna, faldir í dósum og ílátum.

Einhverjir hefðu nú tekið peninga, lagt þá inn á bankabók eða eytt þeim í eitthvað skemmtilegt. En okkar maður, hafði samband við ættinga fyrri eiganda og sagði þeim frá peningunum.

„Ég fríkaði út, læsti peningana í bílnum mínum og kallaði á konuna mína og tjáði henni að hún myndi ekki trúa því sem ég hafði fundið,“ segir Ferrin. Fjölskyldan hóf að telja peningana og segir Ferrin að þau hafi hætt þegar þau höfðu talið um 40 þúsund dollara.

Því næst hafði fjölskyldufaðirinn samband við eitt af börnum, fyrri eiganda sem var látinn, og gaf því peningana.

„Ég er ekki fullkominn og ég vildi óska þess að ég gæti sagt að það hafi ekki hvarflað að mér að skila peningunum. En við vissum að við þyrftum að skila þeim en það þýðir ekki að ég hafi ekki hugsað um bilaða bílinn okkar, hversu mikið okkur langar að ættleiða barn sem við höfum ekki efni á núna, eða gera upp nýja húsið okkar,“ segir hann. „En við áttum ekki peningana og ég er viss um að þú færð ekki oft tækifæri til að vera svona hreinskilinn. Að gera svona góðverk fyrir einhvern er lexía sem vona að ég geti kennt börnunum mínum,“ segir Ferrin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×