Erlent

Getur staðið upp fjórum árum eftir að hafa lamast fyrir neðan mitti

Bandarískur maður sem lamaðist neðan við brjóst í bílslysi fyrir fjórum árum getur nú staðið upp og jafnvel gengið á göngubretti,  eftir tilraunameðferð á háskólasjúkrahúsi.

Rob Summers sem nú er 25 ára hryggbrotnaði í bílslysi  árið 2006. Hann var ófær um að hreyfa vöðva neðan við áverkann þótt hann hefði einhverja tilfinningu. Summers var tekinn í tilraunaaðgerð við mænuskaðarannsóknarstofu háskólans í Louisville í Kentucky.

Læknar og vísindamenn þar græddu sextán rafskaut meðfram mænunni. Eftir nokkurra mánaða þjálfun gat Summers staðið upp og borið eigin þyngd í fjórar mínútur. Ef hann er settur í burðarólar getur hann jafnvel gengið á göngubretti. Löng og ströng þjálfun er framundan áður en Summers getur gengið eðlilega en hann er vongóður og glaður.

„Ég gat ekki hreyft tærnar, hvað þá annað í fjögur ár. En þremur dögum eftir að kveikt var á örvunarskautunum gat ég staðið sjálfur og ekki nóg með það, þetta jók sjálfstraust mitt og gaf mér von um að ég gæti náð takmarki mínu, staðið upp og gengið. Þetta hjálpaði mér bæði líkamlega og tilfinningalega,“ segir Rob.

Rafskautin gera Summers kleift að stjórna mjöðmum sínum, hnjám, öklum og tám. Vísindamennirnir segja að reyna verði þessa aðferð á fleiri sjúklingum áður en hægt verði að staðfesta að hún gagnist öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×