Innlent

Fjárhagsáætlun verði endurskoðuð

Hanna Birna sést hér með Jóni Gnarr borgarstjóra og S. Birni Blöndal, aðstoðarmanni borgarstjóra.
Hanna Birna sést hér með Jóni Gnarr borgarstjóra og S. Birni Blöndal, aðstoðarmanni borgarstjóra. Mynd/Vilhelm
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að núgildandi fjárhagsáætlun verði endurskoðuð með hliðsjón af rekstrarafgangi borgarsjóðs 2010 sem var tæpur 1,5 milljaður. Lagt var til að það yrði gert með því að draga til baka hækkanir á útsvari borgarbúa og hverfa frá áformum um umdeildar skólasameiningar, að því er fram kemur frá Sjálfstæðisflokknum. Tillagan var felld.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á að slíkar breytingar myndu hafa víðtæk áhrif fyrir borgarbúa, en myndi einungis draga úr afgangi borgarsjóðs um tæpan þriðjung þar sem kostnaður vegna þessara tillagna yrðri lægri um 400 milljónir og enn eftir stæði rúmlega milljarður í afgang.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, gagnrýndi þessa afgreiðslu. „Til að sýna í verki að borgarstjórn vilji standa með íbúum borgarinnar ætti að sjálfsögðu að endurskoða gildandi fjárhagsáætlun og meta hvernig hægt sé að gera betur og tryggja að borgarbúar njóti þessa afgangs.  Ítrekað hefur meirihlutanum verið bent á að alltof miklar skatta- og gjaldskrárhækkanir hafi verið óþarfar og óskynsamlegar, en í stað þess að leita anarra og farsælli lausna hefur Reykjavíkurborg nú ákveðið að fara sömu leið og ríkisstjórnin og leita stöðugt dýpra í vasa almenning sem ekki getur meira,“ er haft eftir Hönnu Birnu í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×