Innlent

Segir forseta ekki hafa neitt val - verður að afhenda bréfin

Helga Arnardóttir skrifar
Forsætisráðherra segir forseta Íslands ekki hafa neitt val þegar komi að því að afhenda fjölmiðlum afrit af bréfum hans til forsætisráðherra vegna setningar siðareglna fyrir forsetaembættið. Forsetinn hefur neitað að afhenda bréfin.Fréttastofa hefur áður fjallað um bréfasamskipti forsætisráðuneytisins og forsetaembættisins um setningu siðareglna fyrir forseta Íslands. Í bréfum til forsetans hefur forsætisráðherra ítrekað mikilvægi þess að hann setji embættinu siðareglur líkt og lagt er til í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þær reglur hafa ekki verið settar.Fréttastofa hefur greint frá inntaki allra bréfa forsætisráðuneytisins sem hún fékk afhent í krafti upplýsingalaga. Forsetaembættið hefur hins vegar synjað fréttastofu um afhendingu bréfs sem forsetinn ritar forsætisráðherra og hefur sú ákvörðun verið kærð til Úrskurðarnefndar upplýsingamála. Forsætisráðuneytið afhenti fréttastofu í gær fjórða bréfið sem Jóhanna Sigurðardóttir sendi forseta Íslands í lok mars. Þar kemur fram að starfsmenn beggja embætta hafi fundað um málið eftir að beiðni Stöðvar 2 um afhendingu bréfanna barst ráðuneytinu fyrir um tveimur mánuðum.Í þessu nýjasta bréfi er einnig greint frá því að ráðuneytið hyggist afhenda öll bréf sem það sendi til forsetans. Svarbréf forsetaembættisins verði hins vegar ekki birt að svö stöddu í ljósi andstöðu embættisins við það.Í bréfinu segir forsætisráðherra orðrétt:„Forsætisráðuneytið telur eftir sem áður að afhenda beri öll framangreind bréfskipti á grundvelli ákvæða núgildandi upplýsingalaga.Undirrituð telur því að embættin hafi ekkert val í þessu efni þar sem enga undanþáguheimild sé að finna í upplýsingalögum um skrifleg samskipti forseta og ráðherra hér á landi."Í lok bréfsins leggur Jóhanna mikla áherslu á að öll samskipti milli þeirra séu skrifleg og með formlegum hætti og segir:„Rétt er að benda á að forseti Ísland hefur sjálfur kosið að eiga skrifleg samskipti við forsætisráðherra og fjármálaráðherra þegar hann hefur upplýst um ákvörðun sína í þeim tveimur tilvikum sem hann hefur synjað lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave samninga staðfestingar."Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.