Erlent

Stal farsíma stórslasaðrar konu

23 ára gamall breskur karlmaður, Ben Heney, var í dag dæmdur í 12 vikna fangelsi fyrir að stela farsíma konu sem lá mikið slösuð á bílastæði við verslunarmiðstöð í Manchester. Konan lést á sjúkrahúsi í gærdag en ekki liggur fyrir hvernig hún slasaðist.

Áður en sjúkra- og lögreglumenn komu á vettvang reyndu almennir borgarar að hjálpa konunni. Það var þá sem Heney notaði tækifærið og tók upp farsíma konunnar, sem er bleikur og af gerðinni Samsung, og gekk í burtu. Athafið náðist á eftirlitsmyndavél og voru lögreglumenn ekki lengi að hafa uppi á manninum sem sagðist hafa selt símann á 20 pund eða um 3700 krónur.

Breskir dómstólar geta einnig haft hraðar hendur en degi eftir þjófnaðinn kom Heney fyrir dómara í dag sem dæmdi hann í 12 vikna fangelsi. Dómarinn Heney ekki eiga sér nokkrar málsbætur. Það sama segir Mark Astbury, varðstjóri hjá lögreglunni í Manchester, og bætir við að um afar ógeðfeldan þjófnað hafi verið að ræða sem gengið hafi fram af reyndustu lögreglumönnum borgarinnar. „Að stela frá deyjandi konu í stað þess að hjálpa henni eða veita huggun er algjörlega ófyrirgefanlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×