Efnahags- og viðskiptaráðherra segir að rökstuðningur íslenskra stjórnvalda í svari til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna Icesave sé það öflugur að hann ætti að duga stofnuninni til að ljúka málinu. Svarið verður sent ESA í dag.
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra segir menn hafa lagt sig fram um halda fram öllum rökum Íslands í málinu. En ESA sendi íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf í fyrra þar sem stofnunin heldur því fram að Íslendingum beri að tryggja greiðslur á 21 þúsund evrum samkvæmt innstæðutrygginga reglum á hverjum Icesave reikningi í Bretlandi og Hollandi.
Fjöldi fólks hafi sökt sér ofan í þetta mál á undanförnum árum og búi yfir mikilli þekkingu á því sem mikilvægt hafi verið að nýta. Svarið sem sent verður til ESA í dag er upp á 34 síður og verður kynnt á fréttamannafundi klukkan fjögur.
Árni telur að rökstuðningur Íslands sé traustur og málið ætti ekki að þurfa að fara fyrir EFTA dómstólinn eins og það mun gera fallist ESA ekki á rök Íslendinga.
ESA fær svar vegna Icesave sent í dag - blaðamannafundur síðdegis
