Enski boltinn

Fabregas: Arsenal á tímamótum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cesc Fabregas hefur lýst áhyggjum sínum af því hversu illa Arsenal hefur gengið að vinna titla á undanförnum árum. Síðasti titilinn sem félagið vann var í ensku bikarkeppninni árið 2005.

Arsenal hefur alls ekki átt slæmt tímabil en liðið er þó bæði fallið úr leik í enska bikarnum sem og Meistaradeild Evrópu auk þess sem að liðið tapaði fyrir Birmingham í úrslitum ensku deildabikarkeppninnar.

Arsenal er nú sjö stigum á eftir Manchester Uinted á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en á að vísu leik til góða. United tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni er liðið gerði markalaust jafntefli við Newcastle í gær en Arsenal á sex leiki eftir á tímabilinu.

„Við erum ekki að vinna titla en samt að spila vel. Þetta byrjaði ég að segja árið 2007,“ sagði Fabregas í samtali við spænskt tímarit.

„Í ár áttum við fínan möguleika á að vinna titil í fjórum mismunandi keppnum. Þá finnst manni eins og að allt sé til staðar hjá mánni. En svo vantar alltaf lokahöggið.“

„Þá þarf maður að taka ákvörðun. Annað hvort að leggja allt í að vinna eða þá að ala upp góða leikmenn eða byggja upp lið.“

„Ég tel að okkur hafi skort hugarfar sigurvegarans sem og þroska á lykilaugnablikum´a tímabilum,“ sagði Fabregas. „Við erum með hæfileikaríka leikmenn en skortir smá sjálfstraust. Þess vegna hefði það verið svo mikilvægt að vinna enska deildabikarinn.“

„Robin van Persie vann bikarinn með mér árið 2005 en það er allt og sumt. Enginn í liðinu hefur unnið neitt. Okkur skortir þá þekkingu að vita hvað þurfi til að vinna titla.“

Fabregas hefur verið sterklega orðaður Við Barcelona undanfarin misseri en hann segir að honum liggi ekkert á.

„Þegar ég fer frá Arsenal verður það að vel ígrunduðu máli - ekki bara af því að.“

„Þrátt fyrir að ég hafi ekki unnið marga titla hér þá hefur mér gengið mjög vel. Ég ræddi nýverið við Carles Puyol, fyrirliða Barcelona, sem sagði mér að hann hefði ekki verið búinn að vinna neitt 26 ára gamall. Hann hefur nú unnið allt sem hægt er að vinna.“

„Það sem mestu máli skiptir í lífinu er þolinmæði og að leggja á sig mikla vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×