Enski boltinn

Vieira: Balotelli er misskilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vieira og Balotelli eru greinilega góðir vinir.
Vieira og Balotelli eru greinilega góðir vinir. Nordic Photos / Getty Images
Patrick Vieira, samherji Mario Balotelli hjá Manchester City, segir að skrautleg uppátæki þess síðarnefnda sé bara hluti af því sem geri hann að svo heillandi persónu.

Balotelli hefur margoft komist í fréttirnar fyrir téð uppátæki á núverandi leiktíð en hann kom til Manchester City síðastliðið sumar.

Hann hefur til að mynda slegist við samherja á æfingu, kastað pílum í leikmann unglingaliðs félagsins og látið góma sig í nágrenni kvennafangelsis, þar sem hann vildi aðeins fá að snuðra um og svala forvitninni.

Svo, eftir leik City gegn grönnum sínum í Manchester United í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar, ögraði honum stuðningsmönnum United og lenti saman við Rio Ferdinand, fyrirliða liðsins.

„Þetta er bara hluti af hans persónuleika og eitt af því sem er svo heillandi við hann. Hann varð kannski yfirspenntur eftir leikinn en mér fannst leikmenn United líka ganga of langt.“

„Það var meiri pressa á City en United í þessum leik. United er félag sem er vant því að vera í aðstæðum sem þessum en hjá okkur braust út hrein gleði því félagið hefur beðið eftir þessu í svo langan tíma.“

„Þetta var mikill léttir, sérstaklega þar sem að fjölmiðlar reiknuðu með auðveldum sigri United.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×