Innlent

Olíuleit Norðmanna í sumar nýtist Íslendingum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Svæðið milli Íslands og Jan Mayen, þar sem Norðmenn ætla að leita að olíu í sumar, nær inn á íslenska Drekasvæðið og einnig yfir þann hluta í norsku lögsögunni sem Íslendingar eiga rétt á að nýta.

Með táknrænni heimsókn til Jan Mayen haustið 2009 markaði olíumálaráðherra Noregs þá stefnu að svæðið skyldi opnað til olíuleitar og staðfesti Norska Stórþingið þá stefnumörkun með fjárveitingum til rannsókna til undirbúnings olíuborunum.

Olíustofnun Noregs hefur nú tilkynnt að þegar í sumar verði farið í hljóðbylgjumælingar. Rannsóknarskip mætir á svæðið í júníbyrjun og mun í þrjá mánuði sigla fram og til baka með átta kílómetra langa kapla í eftirdragi. Þeir senda hljóðbylgjur djúpt niður í berggrunninn en bergmál hljóðsins gefur vísbendingar um olíu og gas.

Þegar skoðað er kort Olíustofnunar Noregs af fyrirhuguðum leitarferlum rannsóknarskipsins vekur athygli að leitin nær inn í lögsögu Íslands. Ástæðan er samningar ríkjanna um 25 prósenta gagnkvæman nýtingarrétt í lögsögu hvors annars á afmörkuðu svæði á Jan Mayen-hryggnum. Fyrir íslenska hagsmuni skiptir það einnig máli að leitin mun að miklu leyti beinast að þeim hluta í norsku lögsögunni sem Íslendingar eiga rétt á að nýta að einum fjórða.

Hér á Íslandi vonast sérfræðingar Orkustofnunar til að þessi skref Norðmanna glæði áhuga á næsta Drekaútboði Íslendinga, sem fram fer í haust, og beini sjónum olíuiðnaðarins í auknum mæli að hafsvæðinu milli Íslands og Jan Mayen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×