Innlent

Vilja reisa metanorkuver í Melasveit

JMG skrifar
Vonast er til að fyrsta metanorkuverið rísi á Íslandi fyrir lok næsta árs. Framleiðslan samsvarar ársnotkun þúsund fólksbíla.

Það var við eldhúsborðið á bænum Belgsholti í Melasveit sem forsvarsmenn Metanorku og Stjörnugríss undirrituðu viljayfirlýsingu um að rannsaka hagkvæmni þess að reisa fyrsta metanorkuverið á Íslandi. Ef af verður er vonast til að reisa verið fyrir árslok 2012.

Orkuverið myndu rísa við svínabú Stjörnugríss í Melasveit. Vonast er til að framleiða metan sem samsvarar ársnotkun um þúsund fólksbíla.

Orkuverið nýtir til framleiðslunnar lífrænan úrgang frá svínabúinu. Við vinnsluna verður einnig til betri og lyktarminni áburður. Metanleiðsla verður síðan lögð frá orkuverinu að metanþjónustustöð við þjóðveginn.

„Það er góð viðbót við metanmarkaðinn af því að hann hefur til þessa bara verið á höfuðborgarsvæðinu og það er mjög mikilvægt fyrir metanbílaeigendur sem er ört stækkandi markaður að stækka þetta svæði sem þjónar þeim," segir Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri Metanorku.

Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss sér marga kosti við að reisa metanver. „Þetta er stórt skref í átt að sjálfbærni og við munum geta dreift hérna með minni lyktarmengun en áður og nýtt áburðinn til kornræktar í meira mæli en áður."

Hann hefur fylgst með þróuninni erlendis og nú sé áralangur draumur mögulega að rætast. „Núna hefur kornverð og orkuverð hækkað það mikið að þetta er orðið mjög fýsilegt," segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×