Enski boltinn

Szczesny og Djourou verða með Arsenal á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wojciech Szczesny og Johan Djourou reyna hér að verjast Lionel Messi.
Wojciech Szczesny og Johan Djourou reyna hér að verjast Lionel Messi. Mynd/AFP
Arsenal-mennirnir Wojciech Szczesny og Johan Djourou eru orðnir góðir af meiðslum sínum og verða klárir í slaginn þegar Arsenal tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

Szczesny fór úr lið á fingri í Meistaradeildarleiknum á móti Barcelona á Camp Nou 8. mars síðastliðinn og fjórum dögum seinna fór Johan Djourou úr axlarlið í bikarleik á moti Manchester United á Old Trafford.

Arsenal hefur ekki tapað í ensku úrvalsdeildinni þegar Djourou hefur spilað í vetur en liðið hefur náð í 42 af 48 stigum í boði í þessum 16 leikjum og hefur jafnframt aðeins fengið á sig fjögur mörk í þeim.

Szczesny hefur fengið á sig 6 mörk í 8 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og Arsneal hefur náð í 17 af 24 stigum mögulegum út úr þeim.

Bæði Szczesny og Djourou eru farnir að æfa á fullu og þá berast einnig jákvæðar fréttir af Thomas Vermaelen sem er að snúa til baka eftir hásinaraðgerð. Belginn er farinn að æfa og Arsenal ætlar að reyna að skipuleggja æfingaleiki fyrir luktum dyrum á næstunni.

Arsenal er sjö stigum á eftir Manchester United í baráttunni um enska meistaratitilinn og á auk þess leiki inni á United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×