Innlent

Páll Óskar við fermingarbörnin: Bannað að fara í fýlu!

Erla Hlynsdóttir skrifar
„Þið eruð algert æði," sagði Páll Óskar við fermingarbörnin sem fermdust borgaralega
„Þið eruð algert æði," sagði Páll Óskar við fermingarbörnin sem fermdust borgaralega Mynd: Sidmennt.is
„Ég trúi því að við séum öll alveg ógeðslega klár í einhverju.  Við höfum öll einhverja geggjaða hæfileika á einhverjum sviðum.  Við fengum öll einhverja mikla gjöf þegar við fæddumst," sagði Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður í ávarpi sínu til fermingarbarna sem fermdust borgaralega síðasta sunnudag.

Athöfnin var á vegum Siðmenntar og fór fram í Háskólabíói. Fermingarbörn voru 176 og hafa aldrei fleiri fermst borgaralega.

Páll Óskar óskaði fermingarbörnum kærlega til hamingju með daginn. „Það er alveg aðdáunarvert að það sé svo mikið af unglingum sem spyrja sig sjálf krefjandi spurninga og gleypi ekki við öllu umhugsunarlaust, og gangi í gegnum sína fermingu á siðferðislegum og heimspekilegum grunni.  Þið eruð algert æði," sagði hann.

Engin útskrift úr sjálfsvirðingarskólanum

Hann lagði mikla áherslu á að unglingar reyndu að sporna við útlitsdýrkun samtímans og fengju tækifæri til að blómasta sem þau sjálf.

„Ég er ekki að ætlast til þess að 13 ára unglingar viti hvað sjálfsvirðing er - en ég get lofað ykkur því - að sjálfvirðingin verður örugglega eitt stærsta verkefni ykkar í lífinu.   Þið eigið eftir að þurfa að skoða ykkar sjálfsvirðingu og hvað hún nákvæmlega liggur - það sem eftir er æfinnar.   Það er engin útskrift úr sjálfsvirðingarskólanum.   Maður þarf að vakta hana á hverjum degi.  Maður veit í rauninni ekkert hvað svona hugtök þýða fyrr en maður fær að reyna þau á eigin skinni,

Manneskja sem er með sjálfvirðinguna í jafnvægi, er mjög sátt við það hvernig hún lítur út.   Hún fílar sjálfa sig.  Manneskja með sjálfsvirðingu hefur enga sérstaka þörf á að líta út eins og Jennifer Aniston, eða Arnold Schwarzenegger.   Manneskja með sjálfsvirðingu fílar að vera nákvæmlega eins og hún er.   Það er mun skárra að vera frumeintakið af sjálfum sér, heldur en að vera léleg kópía af einhverjum öðrum," sagði hann.

Ekki dópa og borðið grænmeti

Páll Óskar lauk ræðunni á því að gefa unglingunum þau heilræði sem hann fer sjálfur eftir í lífinu:

„Ekki reykja, ekki drekka, ekki dópa, borðið mikið grænmeti, ekki borða mikið af steiktum og brösuðum mat, reynið að borða eins orginal mat og hægt er, hreyfið ykkur í takt við það sem þið borðið, fáðu þér vinnu sem þér finnst skemmtileg, ekki fara með rifrildi upp í rúm, leysið frekar deilumál á staðnum, syngið eins og enginn sé að hlusta, dansið eins og enginn sé að horfa - og svo er bannað að fara í fýlu"



Ávarp Páls Óskars má lesa í heild sinni á vef Siðmenntar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×