Innlent

Engar formlegar viðræður í dag

MYND/Anton
Engar formlegar viðræður fara fram milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins vegna nýrra kjarasamninga í dag. Hjá ríkissáttasemjara fengust þau svör fyrir hádegi að ekki væri búist við að þessir aðilar kæmu saman hjá honum fyrr en eftir páskahelgina.

Krafa Samtaka atvinnulífsins um að fengin verði ásættanleg niðurstaða varðandi stjórn fiskveiða áður en langtíma kjarasamningur verði gerður, stendur enn. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA sagði í fréttum okkar í gær að reyndur stjórnmálamaður eins og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hlyti að gera sér grein fyrir að mál eins og þetta yrði ekki leyst öðruvísi en með samningum.

Búist er við að frumvarp Jóns Bjarnasonar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða líti dagsins ljós í maí. Líklegt er að þar verði gert ráð fyrir að veiðiheimildir verði leigðar út með svo kallaðri samningaleið til fimmtán ára, en Landsamband íslenskra útvegsmanna hefur lagt til að leigutíminn verði um 60 ár og leiguverð miðist við hagnað af rekstri fyrirtækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×