Erlent

Réttað yfir leiðtogum Rauðu Khmeranna

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Hundruð manna voru viðstödd þegar réttarhöld yfir þremur háöldruðum fyrrverandi leiðtogum Rauðu Khmeranna hófust í Kambódíu í dag en þeir eru meðal annars ákærðir fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu.

Nuon Chea, fyrrum hægri hönd leiðtogans Pol Pots, Khieu Samphan fyrrum forsætisráðherra og leng Sary fyrrverandi utanríkisráðherra voru allir viðstaddir þegar réttarhöldin yfir þeim hófust í morgun.

Eftirlifandi fórnarlömb Kmheranna og aðstandendur þeirra hafa beðið í rúma þrjá áratugi eftir þessari stund en talið er að þriðjungur kambódísku þjóðarinnar, hátt í tvær milljónir, hafi látið lífið á árunum 1975 til 1979 þegar ógnarstjórnin var við völd.

Talið er að réttarhöldin geti staðið yfir í marga mánuði, eða jafnvel nokkur ár. Þeim hefur verið skipt upp eftir ákæruliðum þar sem þremenningarnir eru veikburða og er óttast að þeir láti lífið áður en réttarhöldunum lýkur. Með þessum hætti á að tryggja að þeir verði sakfelldir í að minnsta kosti einum ákærulið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×