Enski boltinn

David De Gea hefur rætt við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David de Gea.
David de Gea. Nordic Photos / AFP
Fulltrúar David de Gea, markvarðar Atletico Madrid á Spáni, segja að þeir hafi verið í sambandi við Manchester United.

United er nú að leita sér að nýjum markverði þar sem að Edwin van der Sar mun leggja skóna á hilluna nú í vor.

Margir hafa verið orðaðir við félagið á undanförnum mánuðum, til að mynda Manuel Neuer, Maarten Stekelenburg, Rene Adler og de Gea.

Enskir fjölmiðlar hafa fullyrt að United hafi þegar lagt fram tilboð í De Gea en það hefur Atletico ekki staðfest.

„Við höfum átt í viðræðum við Manchester United en fyrst af öllu þurfa félögin að ná saman,“ sagði fulltrúinn við enska fjölmiðla.

„Þess fyrir utan hafa flest stærstu liðin í Evrópu sýnt David de Gea áhuga.“

Hann segist ekki vita hvort að Atletico hafi áhuga á að selja kappann en samkvæmt samningi hans er félaginu skylt að gera það ef tilboð berst upp á 20 milljónir evra. Óvíst er hvort að félagið muni taka lægra tilboði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×