Enski boltinn

Reading vann Portsmouth í Íslendingaslag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Björn í leik með Reading gegn Manchester City fyrr á leiktíðinni.
Brynjar Björn í leik með Reading gegn Manchester City fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / Getty Images
Allir þrír Íslendingarnir voru í byrjunarliðum sinna liða er Reading vann 2-0 sigur á Portsmouth í ensku B-deildinni í dag.

Shane Long skoraði bæði mörk Reading í dag, bæði í fyrri hálfleik. Það síðara kom eftir vítaspyrnu.

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku báðir allan leikinn fyrir Reading og Hermann Hreiðarsson fyrstu 78 mínúturnar fyrir Portsmouth.

Aron Einar Gunnarsson lék alla leikinn fyrir Coventry sem vann 2-0 sigur á Watford í sömu deild.

Heiðar Helguson og félagar í QPR eru enn á toppi deildarinnar með 76 stig en þeir liðið mætir Sheffield United á mánudagskvöldið.

Reading er í sjötta sæti með 60 stig en þetta var fjórði sigur liðsins í röð. Reading hefur þar að auki ekki tapað í átta deildarleikjum í röð.

Coventry vann sinn fyrsta sigur í langan tíma í dag og lyfti sér þar með upp í sautjánda sæti deildarinnar. Falldraugurinn er því aðeins búinn að fjarlægjast Aron og félaga.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék allan leikinn í 2-0 sigri Huddersfield á Tranmere í ensku C-deildinni í dag. Þá kom Ármann Smári Björnsson inn sem varamaður er lið hans, Hartlepool, gerði 1-1 jafntefli við Swindon.

Huddersfield er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar en Hartlepool er í tólfta sæti og siglir nokkuð lygnan sjó um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×