Enski boltinn

Balotelli sektaður fyrir slæma hegðun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum mun Manchester City sekta Mario Balotelli um vikulaun, alls 100 þúsund pund, auk þess sem að félagið mun gefa honum formlega aðvörun vegna slæmrar hegðunar.

Balotelli kastaði pílum að leikmönnum unglingaliðs félagsins úr glugga í húsi á æfingasvæði félagsins nú á dögunum.

Hann var ekki valinn í ítalska landsliðið nú á dögunum og sögðu forráðamenn landsliðsins að það hefði verið vegna slæmrar hegðunar hans.

Þar að auki er nýbúið að sekta hann um tveggja vikna laun fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leik gegn Dynamo Kiev í Evrópudeildinni fyrr í mánuðinum.

Þetta er ekki í fyrsta rauða spjaldið sem Balotelli hefur fengið á leiktíðinni og hann missti einnig af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla. Hann var keyptur til City fyrir 24 milljónir punda og hefur skorað tíu mörk á tímabilinu. Yfirleitt hefur hann þó bara verið til vandræða.

Sjálfur segist hann þó ánægður hjá City og að hann sé ekki á leið frá félaginu.

„Þetta er frábær reynsla fyrir mig. Allir hjá félaginu eru frábærir og maður sér félagið vaxa á hverjum degi," sagði hann við enska fjölmiðla. „Ég reyni að endurgjalda traustið sem knattspyrnustjórinn hefur sýnt mér sem og félagið sjálft fyrir að kaupa mig."

„Ég vona að stuðningsmennirnir viti að mér líkar vel að vera hjá City og ég er stoltur af því að geta tekið þátt í því að endurskrifa sögu félagsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×