Erlent

Arabandalagið endurskoðar stuðning við flugbann í Líbíu

Andri Ólafsson skrifar
Arababandalagið endurskoðar nú stuðning sinn við flugbannið í Líbíu eftir harðar loftárásir bandamanna á Trípólí í nótt. Fréttir herma að 48 óbreyttir borgarar hafi látið lífið í árásunum.

Bandamenn segja að til þess að framfylgja flugbanni þurfi flugvélar þeirra að fá að fljúga óáreittar um líbíska lofthelgi.

Í Trípolí reyndu menn veikum mætti að skjóta niður herþotur bandamanna sem sveimuðu þar yfir, en þetta eru máttlausar varnir gegn andstæðingi sem hefur algjöra tæknilega yfirburði.

Óttast er hvaða afleiðingar svona róttækt inngrip mun hafa á deilurnar í Líbíu, það er að minnsta kosti ljóst að óbreyttir borgar munu falla. Ríkissjónvarpið í landinu segir að 48 hafi látist í árásinni í nótt og þrefalt fleiri slasast.

Árásirnar í nótt voru í dag gagnrýndar af leiðtoga arababandalagsins, sem styður flugbannið, en ekki sprengjuárásir af þessu tagi þar sem þær bitni óhjákvæmilega á óbreyttum borgurum, það er að segja þeim sem flugbannið á að vernda.

Bandamenn ráða nú yfir lofthelgi Líbíu og herþotur þeirra sveima stöðugt yfir. Þær þurfa ekki einu sinni að lenda til að taka eldsneyti því eldsneytisvélar eru á ferðinni.

Þrátt fyrir allt þetta er einræðisherrann Gaddafi borubrattur eins og venjulega. Meðal annars sagði hann að stjórnarhermennirnir myndu ekki gefa þumlung eftir. Á meðan hann talaði digurbarkarlega sýndi sjónvarpsstöðin mynd af gullnum hnefa kremja bandaríska orrustuþotu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×