Erlent

Ákveður hvort ákæra eigi Gaddafi fyrir glæpi gegn mannkyninu

Mótmælendur í Líbýu hafa nær allar borgir landsins á valdi sínu. Þeir eru þó ekki farnir að fagna sigri enn því í höfuðborginni Trípolí situr einræðisherrann Gaddafi enn við völd og nýtur stuðnings harðskeyttra bandamanna. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna situr nú á fundi og ræðir hvort ákæra eigi Gaddafi fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Allar stærstu borgirnar í austurhluta landsins er á valdi mótmælenda. Höfuðborgin Trípolí og heimabær Gaddafi Sirte, er enn á valdi einræðisherrans. Mestu bardagarnir undanfarna daga hafa svo verið í borgum vestan við Trípolí. Til dæmis í Zawiha þar sem hundruð manna hafa fallið.

Í Mistrata virðast mótmælendur nú hafa yfirhöndina en í gær voru þeir sem féllu í átökum bornir til grafar.

Á yfirborðinu virðist svo allt með kyrrum kjörum í höfuðborginni.

„Það er allt í lagi í Trípólí, það eru engin vandræði. Allir hugsa bara um sitt. Það eru engin vandamál," segir borgari í Trípolí.

En myndir sem almennir borgarar hafa tekið á farsíma og sett á netið sýna að vopnaðar sveitir stuðningsmanna Gaddafi fara um og handtaka mótmælendur í borginni.

Mótmælendur segja að nú sé of seint að snúa við.

Uppreisnin geti aðeins endað með falli Gaddafi. Og miðað við þessar myndir þá styttist óðum í endalokin. Í Tajura sem er 12 kílómetrum frá miðborg Trípóli, ljónagryfju Gaddafi eru skilaboðin eru skýr:

„Líbía er frjáls. Megi slátrarinn fara," segja mótmælendur í kór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×