Innlent

Sagnfræðingur: Ólafur Ragnar hefur breytt forsetaembættinu

Þeir sem gegna embætti forseta Íslands í framtíðinni geta ekki vænst þess að sitja þar á friðarstóli að mati Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings. Hann segir að Ólafur Ragnar hafi breytt embættinu til frambúðar.

Rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar vill að Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér í forsetakosningum á næsta ári samkvæmt könnun fréttastofu stöðvar tvö og fréttablaðsins sem birt var í gær.

Ólafur nýtur mikils stuðnings meðal Framsóknar- og sjálfstæðismanna en dæmið snýst hins vegar við þegar kemur að kjósendum samfylkingar og vinstri grænna. Aðeins um tuttugu og sjö prósent kjósenda vinstri grænna styðja þannig framboð Ólafs.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segir að túlka verði könnunina út frá ákvörðun forseta í Icesave málinu.

„Það er margt fróðlegt í henni. Framsóknarmenn sjá þarna glataða soninn kominn heim. Vinstri grænir hafa snúið baki við fyrrverandi formanni Alþýðubandalagsins og sjálfstæðismenn hugsa með sér að óvinur óvinar míns sé vinur minn," segir Guðni.

Telur þú að forseti hafi verið að hugsa um framboð á næsta ári þegar hann tók ákvörðun með Icesave?

„Hann myndi aldrei taka undir það en ég held að það hljóti að hafa eitthvað að segja, Ólafur Ragnar Grímsson er metnaðargjarn maður og ég yrði ekki undrandi ef hann ákveddi að láta á það reyna að bjóða fram krafta sína áfram," segir Guðni.

Hann segir að Ólafur sé búinn að breyta forsetaembættinu til frambúðar.

„Sá eða sú sem vill verða forseti núna verður að gera sér grein fyrir því að vera menningarforseti eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir , sé liðin tíð. Þeir sem vilja verða forseti núna þeir þurfa að vera búnir undir pólitískan slag," segir Guðni að lokum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.