Íslenski boltinn

Indriði og Sölvi ekki með gegn Kýpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen í leik með íslenska landsliðinu.
Sölvi Geir Ottesen í leik með íslenska landsliðinu.
Þeir Indriði Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen verða ekki með íslenska A-landsliðinu gegn Kýpur í kvöld. Þetta staðfesti Indriði í samtali við Vísi.

Indriði og Sölvi eru nú að fylgjast með leik U-21 liðs Íslands gegn Noregi sem hófst á Kópavogsvelli klukkan 16.15.

Indriði hefur verið veikur en sagði við blaðamann Vísis að hann væri allur að koma til. Hins vegar þyrfti hann meiri tíma til að geta spilað heilan knattspyrnuleik á ný.

Sölvi hefur verið að glíma við bakmeiðsli og var í kapphlaupi við tímann til að ná leiknum. Nú er hins vegar ljóst að hann mun ekki spila með í kvöld.

Indriði og Sölvu léku sem miðverðir í 1-0 tapleik Íslands gegn Noregi ytra á föstudagskvöldið. Kristján Örn Sigurðsson, sem tók út leikbann í leiknum, kemur aftur inn í vörnina nú en það kemur í ljós þegar Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, tilkynnir byrjunarliðið sitt hver spilar við hlið hans í kvöld.

Þeir Jón Guðni Fjóluson, Hallgrímur Jónasson og Eggert Gunnþór Jónsson geta allir spilað við hlið Kristjáns Arnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×