Erlent

Rannsaka talsmáta siðlausra morðingja til þess að góma raðmorðingja

"Hello Clarice“.Persónan Hannibal Lecter var mikið fyrir samræðulistina og þótti nokkuð sannfærandi sem geðsjúkur raðmorðingi.
"Hello Clarice“.Persónan Hannibal Lecter var mikið fyrir samræðulistina og þótti nokkuð sannfærandi sem geðsjúkur raðmorðingi.
Rannsóknarteymi við Cornell háskólann í Bandaríkjunum rannsakar nú talsmáta geðsjúkra morðingja. Teymið ræddi við 52 morðingja en 14 af þeim voru siðlausir geðsjúklingar. Tölva greindi svo talsmáta morðingjanna og kom í ljós að hinir geðsjúku töluðu öðruvísi en hinir.

Allir morðingjarnir voru beðnir um að lýsa ódæðisverkum sínum og komust þá vísindamenn að þeirri athyglisverðu niðurstöðu að hinir geðsjúku lýstu morðum sínum öðruvísi. Þeir lýstu atburðinum á mjög kalda vegu. Þannig lýstu þeir morðunum sem orsök og afleiðingu ákveðins atburðar. Að auki einblíndu þeir mun frekar á einfaldari þarfir eins og mat, drykk og peninga.

Þá komst sérfræðiteymið einnig að því að hinir siðlausu morðingjar notuðu hikorð meira en þeir sem ekki greindust siðlausir. Jeffrey Hancock, sem leiddi rannsóknina, útskýrði að fólk notar yfirleitt biðorð þegar það er að hugsa næstu setningu. Í tilfelli siðlausu morðingjanna þá virtust þeir nota hikorðin frekar til þess að líkja eftir talsmáta andlega heils manns.

Þá veittu vísindamenn því athygli að geðsjúku morðingjarnarnir notuðu mun oftar þátíð þegar þeir lýstu glæpum sínum. Vísindamenn telja að þannig fjarlægi hinn siðlausi morðingi sig tilfinningalega frá því sem hann gerði.

Morðingjarnir notuðu einnig orðin „vegna þess" (because) og „þannig að" (so that) mun oftar en aðrir morðingjar. Það gefur hugsanlega til kynna að morðingjarnir líti svo á að ódæðin séu rökrétt niðurstaða í einhverskonar áætlun.

Svo mátti greina mikinn mun á geðsjúku morðingjunum og hinum varðandi andleg málefni. Hinir geðsjúku veltu slíku almennt ekki fyrir sér.

Rannsóknir vísindamannanna eru ekki síst athyglisverðar í ljósi þess að menn vonast til þess að geta beitt þeim í leitinni að Long Island-raðmorðingjanum. Hann hefur nálgast fórnarlömbin sín í gegnum vefinn Craiglist.

Gangi kenningar vísindamannanna eftir, þá er hægt að greina skilaboð frá siðlausum morðingjum með því að skoða orðfærið í textanum. Og þannig góma hinn seka.

Hægt er að fræðast frekar um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×