Innlent

Utanríkisráðherra Noregs hitti Jóhönnu

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, fundaði með Jóhönnu í morgun.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, fundaði með Jóhönnu í morgun. mynd/forsætisráðuneytið
Utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, átti fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu við Lækjartorg í morgun en að því búnu hélt norski ráðherrann, ásamt fylgdarliði, í Alþingishúsið til fundar við utanríkismálanefnd Alþingis.

Auðlindanýting á Norðurslóðum er talið helsta umræðuefnið í Íslandsheimsókn norska ráðherrans. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að á fundinum með Jóhönnu í morgun hafi verið rætt um samstarf ríkjanna í málefnum Norðurslóða auk þess sem staða aðildarviðræðna Íslands við ESB og norrænt samstarf hafi verið til umræðu.

Opinber heimsókn hans til Íslands hófst á Akureyri í gær. Støre ásamt utanríkisráðherra Íslands, Össuri Skarphéðinssyni, tók þar þátt í fundi í Menningarhúsinu Hofi um norðurslóðasamstarf Íslands og Noregs sem Háskólinn á Akureyri stóð fyrir ásamt utanríkisráðuneytinu. Þar flutti Støre erindi um norðurslóðamál og skrifaði undir samning við Háskólann á Akureyri um stöðu prófessors í norðslóðafræðum, Nansenstöðu.

Þá opnaði utanríkisráðherrann einnig sýningu um norska heimskautafarann, vísindamanninn og mannvininn Fridtjof Nansen. Sýningin verður opin í Háskólanum á Akureyri 3. október og verður opin á opnunartíma háskólans til 14. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×