Innlent

Steingrímur í Kryddsíld: Eftirsjá að Jóni og Árna

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG fullyrti í Kryddsíld Stöðvar 2 sem nú stendur yfir að nýskipuð ríkisstjórn njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, engar vísbendingar hafi komið fram um annað. Jón Bjarnason var þó ekki tilbúinn til þess að svara því í gærkvöldi hvort hann styðji ríkisstjórnina þegar fréttamenn gengu á hann en Steingrímur segir að menn verði að hafa skilning á því þegar fjölmiðlar hafi herjað á Jón „á erfiðu kvöldi". Hrókeringarnar í gær hafi verið erfiðar og að þær hafi tekið innan beggja meirihlutaflokkanna. „Við erum meirihlutastjórn," sagði Steingrímur.

„Við í stjórnmálum verðum að horfast í augu við það að það geta alltaf orðið breytingar," sagði Steingrímur og að alltaf geti komið upp aðstæður sem kalli slíkar breytingar fram. „Þessi embætti eru ekki þarna til þess að einhverjir nafngreindir einstaklingar sitji þar um aldur og ævi," sagði Steingrímur og bætti því við að eftirsjá sé að Jóni Bjarnasyni og og Árna Páli Árnasyni við ríkisstjórnarborðið. Breytingarnar hafi ekkert með þeirra persónur að gera.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins greip þessi ummæli á lofti og sagði að breytingarnar hafi einmitt ekki snúist um neitt annað en persónur. Hann sagði að Jón Bjarnason væri sennilega fyrsti maðurinn til að vera rekinn úr ríkisstjórn fyrir að fylgja stefnu flokks síns út í hörgul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×