Íslenski boltinn

Halldór: Ætli ég setji ekki fleiri mörk í næstu leikjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Halldór Hermann Jónsson.
Halldór Hermann Jónsson.

„Það er leiðinlegt að lenda í langri bið eftir sigri en við vorum svo hungraðir í dag að ekkert annað en sigur kom til greina," sagði Halldór Hermann Jónsson sem átti flottan leik þegar Fram vann Val 3-1 í bikarnum í kvöld.

Framarar voru betra liðið á vellinum og sigur þeirra svo sannarlega verðskuldaður. „Mér fannst við vera með undirtökin frá A til Ö. Við kláruðum loksins færin í dag. Við fengum þrjú færi á átta mínútna kafla og settum þau öll inn. Það er sjaldgæf að við nýtum færin okkar svona vel. En þetta var mjög verðskuldaður sigur," sagði Halldór.

„Við vorum pirraðir yfir því í hálfleik að vera ekki búnir að ná að setja mark. En við vorum staðráðnir í því að bæta úr því í seinni hálfleik."

Halldór skoraði sjálfur fyrsta mark leiksins. „Það er ekki á hverjum degi sem ég skora og ég er búinn að bíða eftir þessu marki. Þegar þetta kemur þá kemur þetta í hrynum hjá mér. Ætli ég setji ekki mörk í næstu leikjum," sagði Halldór.

Kristján Hauksson og Jón Guðni Fjóluson léku ekki með Fram í kvöld vegna leikbanna. Í stað þeirra léku Jón Orri Ólafsson og Hlynur Atli Magnússon í hjarta varnarinnar og áttu báðir mjög góðan leik.

„Ég er hrikalega ánægður með Hlyn og Orra í miðverðinum. Þó að lykilmenn detti út hjá okkur eigum við alveg snjalla leikmenn til að stíga í þeirra skörð. Þeir voru frábærir í dag eins og reyndar allt liðið," sagði Halldór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×