Innlent

Á þriðja hundrað framboð til stjórnlagaþings

Erla Hlynsdóttir skrifar
Krafa um stjórnlagaþing var hávær í búsáhaldabyltingunni
Krafa um stjórnlagaþing var hávær í búsáhaldabyltingunni

Um 160 manns höfðu á föstudag skilað inn framboðsgögnum til landskjörstjórnar vegna framboðs til stjórnlagaþings. Ritari landskjörstjórnar segir fjölda framboða hafa bæst við í morgun og því ljóst að framboðin verða á þriðja hundrað, hið minnsta.

Framboðsfrestur rennur út klukkan tólf í dag og þurfa frambjóðendur að koma framboðsgögnum til skila fyrir þann tíma. Póststimpill verður ekki tekinn gildur heldur þurfa gögn að hafa borist fyrir hádegi. Þeir sem enn eiga eftir að skila inn gögnum er bent á að tekið er við þeim í viðbyggingunni Skála við Alþingishúsið. Enginn frestur verður gefinn á skilum.

Þórhallur Vilhjálmsson, ritari landskjörstjórnar, segir stjórnlagaþingið án fordæma og undirbúningur fyrir það því sömuleiðis fordæmalaus.

Blaðamaður sagðist hafa fengið veður af því að sumir frambjóðendur hefðu áhyggjur af því að listi yfir meðmælendur væri á fimmtán blaðsíðum en nafn frambjóðenda kæmi aðeins fram á þeirri fyrstu. Þannig teldu sumir mögulegt að eftir á gæti einhver haldið því fram að hann hefði mælt með öðrum en raun bar vitni þar sem nafn frambjóðenda væri ekki á fjórtán síðum af þeim fimmtán sem meðmælendalistinn er.

Þórhallur hafði aldrei heyrt af þessum áhyggjum þegar blaðamaður bar þær undir hann og segist ekki búast við að þetta verði vandamál. Hann bendir á að frambjóðandi beri ábyrgð á því að þær upplýsingar sem hann veitir meðmælendum séu réttar og þau gögn sem hann skilar inn séu á ábyggileg.

Hver frambjóðandi þarf að skila inn nöfnum minnst þrjátíu meðmælenda en hver meðmælandi má aðeins mæla með einum frambjóðanda. Þórhallur segist hafa fengið örfá mál inn á sitt borð þar sem fólk segist óvart hafa mælt með fleiri en einum frambjóðanda og hann í kjölfarið leiðbeint fólki til að ganga þannig frá framboðsgögnum til að framboð sé í samræmi við reglur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×