Innlent

Metfjöldi var á Landsmóti æskulýðsfélaga

Unglingar á Landsmóti æskulýðsfélaga söfnuðu fé til að leysa börn á Indlandi úr skuldaánauð. mynd/Árni Svanur Daníelsson
Unglingar á Landsmóti æskulýðsfélaga söfnuðu fé til að leysa börn á Indlandi úr skuldaánauð. mynd/Árni Svanur Daníelsson

Landsmót æskulýðsfélaga fór fram á Akureyri um helgina og tóku rúmlega sjö hundruð ungmenni þátt í mótinu í ár. Þrælabörn á Indlandi voru í brennidepli á mótinu sem var hið fjölmennasta sem haldið hefur verið.

Mótið var hið stærsta sem haldið hefur verið, en í fyrra tóku um fjögur hundruð ungmenni þátt í Landsmótinu. Að sögn Árna Svans Daníelssonar, verkefnisstjóra á Biskupsstofu, var mótið virkilega vel heppnað.

Þrælabörn á Indlandi voru í brennidepli á Landsmótinu í ár og var heil­mikið átak í gangi á laugardeginum þar sem safnað var fé til styrktar börnum sem hafa verið seld í skuldaánauð af foreldrum sínum. Unglingarnir söfnuðu fé með sölu ýmissa muna sem þeir höfðu útbúið og var lagt upp með að frelsa eitt barn fyrir hverja götu á Akureyri. Markaður var settur upp á Glerártorgi á laugardeginum og þar seldu ungmennin muni sína.

„Það var mjög gaman að fylgjast með krökkunum um helgina. Við þurfum öll á einhverju að halda sem fyllir okkur von og þegar maður sér krakka sem þessa koma saman og vinna í þágu góðs málefnis þá fyllist maður slíkri von. Krakkarnir voru með slagorð sem hljóðaði svo: „Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað“. Við erum öll í þeirri stöðu að geta lagt eitthvað að mörkum,“ segir Árni Svanur.

Söfnunin gekk vel og telur Árni Svanur að nóg hafi safnast til að leysa um hundrað börn úr ánauð. Söfnuninni er þó ekki lokið því krakkarnir hyggjast halda áfram að safna fé til styrktar þrælabörnunum á komandi vikum.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, setti mótið. Í opnunar­ávarpi þakkaði hann framtak unglinganna og sagði þá góðar fyrirmyndir. „Við horfum á að það er gróska í æskulýðsstarfinu og við sjáum svo víða vaxtarsprota og góða ávexti af því sem hefur verið unnið að á undanförnum og það er mikið, óumræðilegt þakkarefni,“ sagði í ræðu hans.

Biskup kvað jafnframt mikið þakkarefni að unga fólkið skuli nú ætla að beita kröftunum sínum að því að hugleiða fátæktina í heiminum og leggja sitt af mörkum til þess að leysa börn úr ánauð. „Það er undursamlegt og ég vona og bið að það megi ganga og verða þeim til góðs og blessunar.“ sara@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×