Enski boltinn

Kveðjuleikur Eiðs með Tottenham á sunnudaginn?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Tottenham.
Eiður Smári í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Búist er við því að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði Tottenham sem mætir Burnley í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.

Tottenham tryggði sér fjórða sæti deildarinnar með sigri á Manchester City á miðvikudagskvöldið og búist við því að Harry Redknapp, stjóri liðsins, gefi þeim sem minna hafa spilað að undanförnu tækifæri.

Búist er við því að Sebastien Bassong og Jermaine Jenas verði einnig í byrjunarliðinu sem og að Ben Alnwick verði í markinu í stað Heurelho Gomes.

Leikurinn gæti þó verið mikilvægur því Tottenham á möguleika að stela þriðja sætinu af Arsenal ef síðarnefnda liðið tapar sínum leik fyrir Fulham.

Svo gæti farið að þetta verði kveðjuleikur Eiðs Smára með Tottenham þar sem hann er lánsmaður hjá félaginu. Hann er samningsbundinn Monaco í Frakklandi í eitt ár til viðbótar.

Þó hefur Eiður Smári sagst vilja vera áfram í herbúðum félagsins og talið líklegt að Harry Redknapp, stjóri Tottenham, vilji halda honum fyrst liðinu tókst að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×