Enski boltinn

Man. Utd fær tvo til baka: Amorim grínaðist með fundinn með Ratcliffe

Sindri Sverrisson skrifar
Pressan er gríðarleg á Ruben Amorim sem veitir ekki af góðri frammistöðu gegn Chelsea á morgun.
Pressan er gríðarleg á Ruben Amorim sem veitir ekki af góðri frammistöðu gegn Chelsea á morgun. Getty/Shaun Brooks

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði ekkert óvenjulegt við fundinn sem minnihlutaeigandinn Jim Ratcliffe átti með honum í gær. Portúgalinn staðfesti að þeir Mason Mount og Matheus Cunha hefðu jafnað sig af meiðslum og gætu mætt Chelsea á morgun.

Leikurinn gegn Chelsea er afar mikilvægur fyrir United sem er aðeins með fjögur stig eftir fjórar umferðir, eftir 3-0 skellinn gegn Manchester City um síðustu helgi.

Umræða hefur verið um það hvort að leikurinn á morgun gæti orðið síðasti leikur United undir stjórn Amorim og fregnir af því að Ratcliffe hefði flogið með þyrlu til fundar við hann í gær þóttu undirstrika hve viðkvæm staðan væri orðin.

Amorim var spurður út í fundinn á blaðamannafundi í dag og bauð upp á létt grín.

„Hann var að bjóða mér nýjan samning!“ sagði Portúgalinn léttur en bætti svo við:

„Nei, þetta var bara hefðbundið til að sýna stuðning, útskýra að þetta væri langtímaverkefni. Hann sagði margoft að þetta væri fyrsta leiktíðin mín - fyrir mér er það ekki þannig,“ sagði Amorim.

„En þetta var bara hefðbundið. Ég ræddi við hann, við Omar [Berrada], Jason [Wilcox] bara til að reyna að sjá öll gögn varðandi liðið. Venjulegur fundur og við höfum átt þá nokkra,“ sagði Amorim.

Hann var einnig spurður út í það hvernig yrði að fá Alejandro Garnacho aftur á Old Trafford, nú í búningi Chelsea:

„Garnacho er ekki okkar leikmaður. Ég einbeiti mér að okkar leikmönnum. Ég er mjög ánægður með að Mason og Cunha séu komnir aftur. Þið verðið að tala um aðra við stjóra Chelsea,“ sagði Portúgalinn.

Hann sagði liðið hins vegar enn sakna Lisandro Martínez og að miðvörðurinn væri leikmaður sem United þyrfti á að halda. Diogo Dalot er einnig frá keppni vegna meiðsla.

Leikur Manchester United og Chelsea hefst klukkan 16:30 á morgun, í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×