Innlent

Stefna að sameiningu við Garðabæ

Snorri Finnlaugsson, Kristinn Guðlaugsson, Kjartan Örn Sigurðsson og Hjördís Jóna Gísladóttir úr Sjálfstæðisflokki mynda meirihluta ásamt Einari Karli Birgissyni úr Framsóknarflokki og Guðmundi G. Gunnarssyni af L-lista.
Snorri Finnlaugsson, Kristinn Guðlaugsson, Kjartan Örn Sigurðsson og Hjördís Jóna Gísladóttir úr Sjálfstæðisflokki mynda meirihluta ásamt Einari Karli Birgissyni úr Framsóknarflokki og Guðmundi G. Gunnarssyni af L-lista. Fréttablaðið/Valli
Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkur hafi fjóra af sjö bæjarfulltrúum á Álftanesi og þar með meirihluta í bæjarstjórn hefur flokkurinn myndað meirihluta með bæjarfulltrúa Framsóknarflokks og bæjar­fulltrúa L-lista.

„Með aukinni samvinnu í bæjarstjórn eru þeir sammála um að hagur og velferð íbúanna verði tryggður á sem bestan hátt, meðal annars með aðgerðum sem stuðla að því að álögur á íbúa lækki sem allra fyrst,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu bæjarfulltrúanna.

Álftaneslistinn, sem var með meirihluta í bæjarstjórn Álftaness þar til í fyrrahaust, fékk aðeins einn bæjarfulltrúa kjörinn og er hann eini bæjarfulltrúinn sem ekki er með í nýja meirihlutanum. Sá er Sigurður Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri.

Samkvæmt yfirlýsingu nýja meirihlutans verður leitað eftir sameiningu Álftaness við Garðabæ. Ráðningarsamningur við Pálma Þór Másson bæjarstjóra verður framlengdur út þetta ár.

„Fyrir fund í bæjarráði og bæjarstjórn munu verða undirbúningsfundir þessara aðila með það að markmiði að auka samvinnu og gera bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundi skilvirkari,“ segir nýi meirihlutinn sem kveðst munu endurskoða yfirlýsingu sína þegar fjárhaldsstjórn hefur lokið sinni vinnu. Auk þess sem Sjálfstæðisflokkur á fjóra fulltrúa í bæjarstjórn hefur fulltrúi L-listans, Guðmundur G. Gunnarsson, verið bæjarfulltrúi flokksins þar til nú að hann bauð sig fram undir merkjum L-lista eftir að hafa verið hafnað í prófkjöri. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×