Erlent

Segist ekki hafa svikið neitt

Demókratar hafa gagnrýnt samkomulag hans við repúblikana um að skattaafsláttur nái ekki bara til láglaunafólks. fréttablaðið/AP
Demókratar hafa gagnrýnt samkomulag hans við repúblikana um að skattaafsláttur nái ekki bara til láglaunafólks. fréttablaðið/AP
Barack Obama hvetur þingmenn demókrata til að samþykkja breytt frumvarp um skattalækkanir, sem taka á gildi um áramótin.

Hann segir rangt að demókratar hafi verið sviknir með samkomulaginu sem hann gerði við repúblikana. Því betur sem demókratar skoða hvað felst í frumvarpinu, segir Obama, því meiri hljóti stuðningur þeirra við það að verða.

Hann segir nýja frumvarpið hafa það í för með sér að efnahagur Bandaríkjanna taki kipp og atvinnuleysi minnki. Með frumvarpinu verður framlengdur sá skattaafsláttur sem lágtekjufólk hefur átt kost á í Bandaríkjunum.

Lögin um þennan skattafslátt renna út um áramótin, og repúblikanar hótuðu því að samþykkja ekki frumvarpið nema skattaafslátturinn yrði látinn ná til hátekjufólks en ekki bara lágtekjufólks, eins og verið hefur.

Obama gekk að þessum kröfum repúblikana, en nú eru það demókratar sem hóta því að samþykkja ekki frumvarpið.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×