Innlent

Loftkælibúnaðurinn hefur nýst vel á Haítí

Mynd/AP
„Við höfum fregnir af því að loftkælibúnaður fyrir skurðstofurnar sem var meðal hjálpargagna sem Rauði kross Íslands sendi til Haítí, hafi komið að mjög góðum notum enda erfitt að framkvæma aðgerðir í 35 gráðu hita," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, í frétt á vef samtakanna.

Rauði krossinn sendi loftkælikerfið og rafstöðvar ásamt þúsund skyndihjálparpökkum með flugvél á vegum utanríkisráðuneytisins sem sótti alþjóðabjörgunarsveit Landsbjargar. Á vef Rauða krossins segir að skyndihjálpargögnin hafi einnig komið að góðum notum því þúsundir sjálfboðaliðar Alþjóða Rauða krossins hafa sett upp fjölda skyndihjálparstöðva á hamfarasvæðinu þar sem fólk getur leitað aðhlynningar vegna minniháttar meiðsla.

Tveir íslenskir sendifulltrúar Rauða krossins eru að störfum á Haítí, þau Hlín Baldvinsdóttir sem er fjármálastjóri fyrir neyðaraðgerðir Alþjóða Rauða krossins og Friðbjörn Sigurðsson læknir sem starfar á tjaldsjúkrahúsi þýska Rauða krossins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×