Innlent

Hveragerði styrkir hjálparsamtök vegna Haítí

Haítí. Mynd úr safni.
Haítí. Mynd úr safni.

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á bæjarstjórnarfundi í gær að styrkja Rauða Krossinn og Landsbjörg um 115.300 krónur á hvort félag, sem nemur um það 100 krónum á hvern íbúa bæjarins. Það var forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson, sem bar upp tillögu þess efnis sem hljóðaði svo:

„Hugur heimsbyggðarinnar er hjá íbúum Haíti sem nú upplifa ólýsanlegar hörmungar af völdum jarðskjálftans sem þar reið yfir síðastliðinn þriðjudag. Við Íslendingar búum að stórkostlegu kerfi björgunarliðs sem ávallt er boðið og búið að koma til aðstoðar þeim sem á þurfa að halda, bæði innanlands sem utan.

Því er það með miklu stolti sem þjóðin hefur fylgst með fumlausum viðbrögðum alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem nú þegar er komin til Haíti.

Hvergerðingar vilja leggja sitt af mörkum til að styðja við hjálparstarfið sem þar fer nú fram og því samþykkir bæjarstjórn að greiða sem svarar 100 kr á íbúa til hjálparstarfsins og skiptist upphæðin jafnt á milli Rauða Kross Íslands og Landsbjargar."

Samkvæmt tilkynningu frá bæjarstjórninni hefur styrkurinn þegar verið greiddur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×