Innlent

Mun færri treysta dómsmálaráðuneytinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson er dómsmála- og mannréttindamálaráðherra auk þess að gegna starfi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Mynd/ Anton Brink.
Ögmundur Jónasson er dómsmála- og mannréttindamálaráðherra auk þess að gegna starfi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Mynd/ Anton Brink.
Verulega fækkar í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til dómsmálaráðuneytisins, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómstóla var kannað á dögunum. Niðurstaðan sýnir að 24,5% segjast bera mikið traust til dómsmálaráðuneytisins nú samanborið við 42,3% í október í fyrra.

Það fækkar jafnframt í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Hæstaréttar, fer úr 46,6% frá október í fyrra í 41,8% nú. Þá fjölgar í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Ríkislögreglustjora, fer úr 47,1% í október í fyrra i 52% nú.

Stór hluti svarenda, eða um 77,6%, segist bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Það er nákvæmlega sama hlutfall og í síðustu könnun sem gerð var í október 2009.

Könnunin var gerð á netinu dagana 5. - 8. október síðastliðna. Úrtakið var einstaklingar á aldrinum 18-67 ára sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi var 830 einstaklingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×