Innlent

Upplýst verði um lánaafskriftir

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Skipa á nefnd til að rannsaka verklag og ákvarðanatöku fjármálafyrirtækja frá hruninu haustið 2008 og til ársloka 2009, samkvæmt frumvarpi sem Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, og tíu aðrir þingmenn flytja.

Í frumvarpinu segir meðal annars að nefndin eigi að eyða tortryggni og grunsemdum um óeðlileg vinnubrögð innan fjármálastofnana og leggja mat á hvort mistök, mismunun eða óeðlilegir starfshættir hafi átt sér stað.

Í greinargerð er bent á að ekkert eftirlit hafi verið með verklagi og ákvarðanatöku fjármálafyrirtækja frá hruni til ársloka 2009 en þá tók til starfa sérstök eftirlitsnefnd þar um.

„Ýmsar sögusagnir hafa gengið um ósamræmd og ógagnsæ vinnubrögð og hafa margir leitt að því líkur að fjármálafyrirtæki hafi mismunað viðskiptavinum sínum og hvorki hugað að samkeppnissjónarmiðum né jafnræðissjónarmiðum,“ segir í greinargerðinni. Þessu hafi fjármálafyrirtækin vísað á bug.

Fram kemur að nefndin, sem á að vera skipuð hæstaréttardómara auk tveggja sérfræðinga, skuli huga sérstaklega að því, með almannahagsmuni að leiðarljósi, að birta í skýrslu sinni upplýsingar um hvaða aðilar hafi fengið felldar niður skuldir sínar við fjármálafyrirtæki. - bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×