Innlent

Ellefu kórar syngja Fúsalög í Vetrargarðinum

Ellefu kórar munu í dag sameina raddir sínar og syngja Fúsalög, lög eftir hinn ástsæla Sigfús Halldórsson tónskáld í Vetrargarðinum í Smáralind á milli klukkan eitt og þrjú. Tónleikarnir eru hluti af árlegri menningarhátíð Kópavogsbæjar, Kópavogsdaga, sem nú stendur yfir.

Í tilkynningu segir að hátíðin sé í ár tileinkuð Sigfúsi Halldórssyni en hann hefði orðið 90 ára í haust. Sigfús nýtur mikillar virðingar í Kópavogi en hann bjó í bænum í áratugi og var útnefndur heiðurslistamaður. Hann samdi meðal annars lögin Tondeleyo, Litla flugan, Dagný, Við Vatnsmýrina, Lítill fugl og Íslenskt ástarljóð.

Kórarnir sem syngja í dag eru Samkór Kópavogs, Karlakór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs, Englakórinn og skólakórar Kársnesskóla, Digranesskóla, Hjallaskóla, Snælandsskóla, Hörðuvallaskóli og Salaskóla. Þá verður Árnesingakórinn sérstakur gestakór en dóttir Sigfúsar hefur sungið með þeim kór í áraraðir.

Hver og einn kór syngur tvö til þrjú lög og að lokum sameinast allir kórarnir undir merkjum eins risastórs „FÚSA-kórs" og flytja þrjú lög.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×