Innlent

Skortur á aðhaldi varð stjórnsýslunni að falli

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, er formaður starfshópsins.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, er formaður starfshópsins. Mynd/GVA
Skortur á aðhaldi og faglegum vinnubrögðum varð stjórnsýslunni að falli í aðdraganda bankahrunsins. Þetta er mat starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hópurinn leggur til að ráðuneytum verði fækkað og verulegar hömlur settar á pólitískar ráðningar.

Starfshópnum vart gert að meta þau atriði sem beindust sérstaklega að stjórnsýslunni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Til þess fékk hópurinn þrjár vikur og skilaði hann af sér skýrslu með tillögum til úrbóta í dag.

Þar kemur fram að hinn faglegi grundvöllur stjórnsýslunnar hafi verið ómarkviss og veikur. „Það sem að skorti í íslenskri stjórnsýslu var góð samhæfing, góð fagleg verkstjórn og góð pólitísk verkstjórn og það kann ekki góðri lukku að stýra," segir Gunnar Helgi Kristinsson, formaður starfshóps forsætisráðherra.

Hópurinn leggur til að dregið verði úr valdi ráðherra til að skipa embættismenn.

„Það hefur verið umdeilt á Íslandi hvort að pólitískum ráðningum sé beitt í mun meira mæli en lög gera ráð fyrir. Við tökum ekki afstöðu til þess í sjálfu sér en bendum á að það er í sjálfu sér vandamál, þessi útbreidda vantrú að það sé fylgt réttum reglum," segir Gunnar Helgi.

Þá er ennfremur lagt til að ráðuneytum verði fækkað. „Það segir sig kannski sjálft að í mjög litlu landi er ekki hægt að hafa mjög mörg ráðuneyti eins og í stórum löndum. Þau verða svo lítið og það þýðir að hvert þeirra um sig hefur of lítinn aðgang að sérþekkingu," segir Gunnar Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×