Innlent

Tóbaksfræ til heimabrúks

Starfsmaður Garðheima með poka af bóndatóbaksfræum. 
Fréttablaðið/GVA
Starfsmaður Garðheima með poka af bóndatóbaksfræum. Fréttablaðið/GVA

Í verslun Garðheima í Reykjavík eru til sölu tóbaksfræ undir heitinu Wild tobacco. Fræðiheiti plöntunnar er nicotiana rustica og er annarar tegundar en almennt er notuð í tóbaksframleiðslu (nicotiana tabacum). Hún ber þó í sér töluvert meira magn nikótíns.

Hér var plantan árum áður nefnd „bóndatóbak“ til aðgreiningar „borgaratóbaki“ sem fremur var notað í tóbaksframleiðslu.

Á vef landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að plantan sé þar algeng í suðvesturríkjunum, í Mexíkó og Suður-Ameríku. Þá hafi plantan verið notuð í margvíslegum helgisiðum ættbálka indíána sem og í lækningaskyni. Gæluheiti eru meðal annars Azteka-tóbak, Zuni-tóbak og Mapacho. Þá kemur fram á alfræðivefnum Wikipediu að vegna þessa magns nikótíns í plöntunni sé hún gjarnan notuð til að búa til náttúrulegt skordýraeitur.

„Í Rússlandi er N.rustica kölluð „mahorka“. Fólk af lágstéttum reykti hana áður en venjulegt tóbak komst í almenna dreifingu eftir seinni heimsstyrjöldina og er hún stundum enn notuð á þann veg af bændum og búaliði,“ segir á vef Wikipediu. Þar kemur fram að nikótínmagn í laufum plöntunnar sé allt að níu prósent, en eitt til þrjú prósent í hefðbundnum tóbaksplöntum.

„Nei, ég held að það sé af og frá að fólk sé í einhverjum mæli að gera tilraunir með að rækta sitt eigið tóbak. Þetta voru svo fá bréf sem við vorum með hérna,“ segir Vilmundur Hansen, garðyrkjufræðingur í Garðheimum. „Þetta er nú bara eitthvað sem var tekið hér inn af forvitni,“ bætir hann við og segir að til þessa hafi áhugi á fræjunum verið takmarkaður.

„Ég sé ekki að það hafi horfið neitt af viti úr þessu sem við eigum.“

Vilmundur segir hins vegar að einfalt ætti að vera að rækta plöntuna hér. „Þetta er bara ræktað í stofuglugganum,“ segir hann og telur meðferðina ekki ósvipaða og þegar fólk er með tómatplöntur heima hjá sér.

Ekki er um það getið í tóbaksvarnarlögum að ræktun á tóbaki sé óheimil. Á Vísindavef Háskólans er ræktun tóbaksplantna þó talin kunna að vera ólögleg og vísað í lög um verslun með áfengi og tóbak þar sem tekið er fram að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skuli einni heimil starfræksla tóbaksgerðar. Ræktun sé mikilvægur þáttur í tóbaksgerðinni og kunni því að vera óheimil, segir í svari Magnúsar Viðars Skúlasonar laganema við spurningunni um hvort hér megi rækta tóbak.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×