Innlent

Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit hjá Olís og Hátækni

Páll Gunnar Pálsson segir gögn í fyrri húsleit hafi leitt til húsleitar hjá Hátækni og Olís.
Páll Gunnar Pálsson segir gögn í fyrri húsleit hafi leitt til húsleitar hjá Hátækni og Olís.

Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleit hjá starfstöð Hátækni hf. í dag og móðurfélagi þess, Olís. Samkvæmt forstjóra Samkeppniseftirlitsins, Páli Gunnari Pálssyni, þá leiddi rannsókn á gögnum sem voru haldlögð í húsleit eftirlitsins hjá Símanum og móðurfélagi þess, Skiptum, til húsleitar hjá Hátækni.

Grunur leikur á að um hugsanlegt samráð sé að ræða á milli fyrirtækjanna.

Húsleit var framkvæmd hjá Símanum og Skiptum í lok síðasta mánaðar. Fjölmörg gögn voru þá haldlögð af Samkeppniseftirlitinu. Síminn kærði hinsvegar Samkeppniseftirlitið fyrir að notast við þjónustu samkeppnisaðila Símans í húsleitinni.

Það var Eyjan.is sem greindi fyrst frá málinu en húsleitin var framkvæmd um miðjan dag í dag. Húsleitinni er hinsvegar lokið að sögn Páls.

Samkvæmt úrskurði miðaði húsleitin hjá Símanum og Skiptum að almennri rannsókn á mögulegri misnotkun á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði. Jafnframt var tiltekið að Nova hefði beint kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna markaðssetningar Ring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×