Íslenski boltinn

Lárus Orri: Ánægður að enda ferilinn þar sem hann byrjaði

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Skagamenn hafa löngum sýnt að þeir eru samrýndir og tveir gamlir refir hafa rifið fram skóna og hjálpað liðinu í sumar. Stefán Þórðarson lék með liðinu í síðustu umferð gegn HK og nú er Lárus Orri Sigurðsson kominn með leikheimild með ÍA. „Það kom upp í vikunni að þeir eru í vandræðum með meiðsli og spurðu mig hvort ég gæti verið til taks ef á þarf að halda. Það er lítið mál og ég hjálpa liðinu glaður ef ég get,“ sagði Lárus Orri sem hefur aðeins spilað með ÍA og Þór á Akureyri á Íslandi. „Þetta eru einu tvö félögin sem ég ber taugar til hérna heima. Ég spilaði með ÍA upp þriðja flokkinn á meðan pabbi spilaði þa og það er fínt að ljúka ferlinum og klára þar með hringinn þar líka,“ sagði Lárus en faðir hans, Sigurður Lárusson lék bæði með ÍA og Þór. Feðgarnir léku raunar saman fyrir norðan en Lárus Orri hætti þjálfun liðsins fyrr í sumar. Hann býr enn á Akureyri og er ekki á leiðinni þaðan en gæti þó spilað með ÍA gegn Fjarðabyggð á föstudaginn. Hann verður á Akranesi á fimmtudaginn og æfir þá með liðinu en mun annars aðeins vera til taks og æfa einn fyrir norðan. „Ég er æskuvinur Þórðar Guðjónssonar framkvæmdastjóra og Þórðar Þórðarsonar þjálfara. Ef það rætist ekki úr meiðslunum hjá miðvörðunum þeirra þá mun ég spila en ég vona reyndar að þeir þurfi sem minnst á mér að halda,“ sagði Lárus léttur en hann hlakkar þó til að klæða sig í gulu treyjuna á nýjan leik. Lárus hætti vegna samskiptaörðugleika við aðalstjórn Þórs en segir að það hafi ekki verið erfitt að fá félagaskipti. „Það var skrýtið að fara inn í Hamar og fá félagaskipti þar sem ég reyndi að snúa upp á hendina á Páli Gíslasyni til þess,“ sagði Lárus og hló og segir að engin illindi séu í gangi og að allt sé gert í mesta bróðerni. Hann hefur þó ekki hug á að spila lengur en í sumar. „Ég er ekkert að fara að gera þriggja ára samning. Ég hugsa ekkert lengra en bara að næstu helgi,“ sagði Lárus. Árni Thor Guðmundsson spilar ekki meira með ÍA á tímabilinu, Heimir Einarsson er búinn að vera mikið meiddur og Ísleifur Guðmundsson að sama skapi en hann er á leiðinni í rannsóknir þar sem skýrist hvort hnémeiðsli hans eru alvarleg. „Lárus er góður styrkur fyrir okkur og hann kemur með góða reynslu inn í liðið,“ segir Þórður þjálfari en ekki eru fleiri gamlir Skagamenn á leiðinni að draga fram skóna að hans sögn. „Vandamálið er bara að við höfum ekki þessa peninga sem félögin í Reykjavík hafa. Við þurfum því að fara aðrar leiðir en það hefur gengið illa að fá menn upp á Akranes. Það eru klárlega peningarnir sem ráða ríkjum hjá mörgum af þessum strákum í dag,“ sagði Þórður. „Ég er bara ánægður ef ég get eitthvað hjálpað, þó að það sé bara að sitja rólegur á bekknum,“ sagði Lárus Orri, Skagamaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×