Enski boltinn

Fjölmargir orðaðir við Arsenal - Chamakh á leiðinni?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Chamakh til Arsenal?
Chamakh til Arsenal?

Arsenal einokar nánast ensku slúðurblöðin eftir að Arsene Wenger gaf til kynna að hann ætlaði að opna veskið í sumar.

Wenger hefur gefið til kynna að Marouane Chamakh, sóknarmaður franska liðsins Bordeaux, gæti verið á leiðinni á Emirates. Chamakh er 26 ára Marokkómaður sem skorað hefur 15 mörk í vetur.

The Sunday Mirror segir að Arsenal sé að íhuga að leggja fram 8 milljón punda tilboð í markvörðinn Joe Hart hjá Manchester City. Hart hefur verið einn besti markvörður deildarinnar í vetur en hann hefur leikið á lánssamningi hjá Birmingham sem vill halda honum innan sinna raða.

Blaðið segir að Arsenal hyggist styrkja öftustu línu liðsins og Gary Cahill hjá Bolton sé á óskalistanum ásamt Simon Kjaer hjá Palermo.

James Milner hefur átt magnað tímabil hjá Aston Villa og er einnig orðaður við Arsenal.

Nokkuð óvænt er síðan miðjumaðurinn Kevin Nolan hjá Newcastle orðaður við liðið. Nolan hefur átt frábært tímabil með Newcastle í ensku 1. deildinni en er 28 ára, talsvert eldri en þeir leikmenn sem Wenger er vanur að kaupa.

Þá kemur fram í enskum fjölmiðlum að Wenger sé tilbúinn að skoða tilboð í varnarmanninn Gael Clichy sem hefur m.a. verið orðaður við Barcelona. Wenger telur að Kieran Gibbs sé tilbúinn að leysa stöðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×