Innlent

Fjör á „Aldrei fór ég suður“

Gestum á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði fjölgaði nokkuð í gær og alls voru rúmlega tvö þúsund gestir mættir. En það voru ekki aðeins tónlistaráhugamenn á Ísafirði því gestir Skíðavikunnar nutu veðurblíðunnar á Ísafirði.

Fjölmargir skíðaunnendur lögðu leið sína til Ísafjarðar nú um páskana til að sækja Skíðavikuna, en þetta er í sjötugasta og sjötta sinn sem hún er haldin og voru gestir þokkalega heppnir með veður að þessu sinni, en vikunni lýkur á morgun.

Gestum á rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður fjölgaði nokkuð í gær á lokakvöldi hátíðarinnar og voru rúmlega tvö þúsund gestir mættir til Ísafjarðar til að fylgjast með tónleikahaldinu. Á meðal þeirra sem stigu á stokk í gær voru Einar Kárason rithöfundur sem tók lagið og var með gógó-dansara sér til halds og trausts. Þá var Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri mættur til Ísafjarðar með Elvis-taktana í farteskinu.

Sólin frá Sandgerði, sem áhangendur Nætur- og Dagvaktarinnar ættu að þekkja, tróð einnig upp en Halldór Gylfason skemmti lýðnum í gervi Kidda Casio og hafði Helga Björns sér til fulltingis. Tónlistarfólkið í Hjaltalín glöddu smekkvísa og hljómsveitin Dikta, sem var valin vinsælasti flytjandinn á Íslensku tónlistarverðlaununum, var eitt af aðal númerum gærkvöldsins. Og eins og þessar myndir bera með sér þá ætlaði þakið að rifna af húsnæði KNH verktaka, sem hýsti hátíðina, þegar Haukur Heiðar og félagar tóku eitt vinsælasta lag sitt, Thank you...






Fleiri fréttir

Sjá meira


×