Innlent

Borgarfulltrúi segir Hrafn fá sérmeðferð

Byggingarfulltrúi tilkynnti Hrafni um að framkvæmdir við húsið yrðu stöðvaðar þar sem ekki væri fyrir þeim byggingarleyfi. Hrafn segir framkvæmdir tengjast gömlum leikmyndum.fréttablaðið/gva
Byggingarfulltrúi tilkynnti Hrafni um að framkvæmdir við húsið yrðu stöðvaðar þar sem ekki væri fyrir þeim byggingarleyfi. Hrafn segir framkvæmdir tengjast gömlum leikmyndum.fréttablaðið/gva

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna, vill að borgin fjarlægi mannvirki af lóð Hrafns Gunnlaugssonar á Lauganestanga á hans kostnað, fyrir 20. apríl. Þá verði lóðinni komið í það horf sem hún var í þegar samkomulag var gert við Hrafn árið 2003. Þorleifur segir Hrafn hafa margbrotið það.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá barst Hrafni erindi frá byggingarfulltrúa 4. mars þar sem tilkynnt var að allar framkvæmdir í óleyfi yrðu stöðvaðar.

„Það er ekki líðandi að fólk fái að gera það sem því dettur í hug í almannarými. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig borgin okkar liti út ef allir gerðu þetta."

Þorleifur segir Hrafn fá sérmeðferð hjá borgaryfirvöldum. Hann hafi fengið 10 milljónir króna árið 2003 fyrir að fara ekki í frekari framkvæmdir. Það hafi hann brotið með því að koma upp mannvirkjum, stækka tjarnir og gera hóla úr uppgreftrinum. Það sé allt gert á viðkvæmu svæði sem ekki megi hrófla við nema með leyfi minjaverndar.

„Sá grunur læðist að manni, eftir allar hótanir borgarinnar sem ekkert er gert í, að það séu óeðlileg tengsl milli Hrafns Gunnlaugssonar og borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík." Þorleifur óttast að meirihlutinn hafi þæft málið með því að vísa tillögu hans til hverfaráðs. Staðreyndir málsins séu löngu þekktar.

Hrafn Gunnlaugsson segist munu svara erindi byggingarfulltrúa eftir réttum boðleiðum. Málið sé flókið, enda sé um að ræða leikmyndir úr myndum hans. Þær séu hannaðar til að blekkja augað og því sé meira í málinu en sýnist. Hvað framkvæmdir við tjarnir varðar segist Hrafn vinna að því að fegra umhverfið, öllum til ánægju. Allir séu velkomnir í Laugarnesið og þangað sæki margir. Fjöldi ferðamanna hafi heillast af húsinu og umhverfi þess.

Ekki síst sé það hús hans sem veki athygli, en það sé unnið úr endurnýjanlegum efnivið. „Þetta er experíment í environalisma. Þetta er náttúrlega bara dúfnakofinn sem maður fékk ekki að smíða þegar maður var krakki."

Hrafn vill ekki tjá sig um hvort hann hafi leyfi fyrir framkvæmdunum og segist munu svara byggingarfulltrúa með það.

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×