Innlent

Stjórnvöld þvo hendur sínar af Halldóri Ásgrímssyni

Ingimar Karl Helgason skrifar

Ráðning Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, hjá Norrænu ráðherranefndinni, hefur verið framlengd um tvö ár. Íslensk stjórnvöld þvo hendur sínar af málinu.

Halldór var gerður að framkvæmdastjóra eftir að hann hætti þátttöku í stjórnmálum og ráðinn til fjögurra ára, frá áramótum 2007. Hann hefur nú verið ráðinn áfram í tvö ár. Þetta gerðist í sumar, en kemur fyrst upp á yfirborðið nú.

Svona framhaldsráðningar munu vera hálfsjálfvirkar í Norðurlandasamstarfinu.

En það eru ekki allir sáttir.

Katrín Jakobsdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda segir í samtali við vefritið Smuguna, að hún hefði sjálf líklega ekki sóst eftir framhaldsráðningu, stæði hún í sporum Halldórs.

En málið ætli hún að ræða við samstarfsráðherra; samhliða því að fara yfir rannsóknarskýrslu Alþingis og hvernig nauðsynlegt sé að efla traust í íslensku samfélagi. Halldór hafi sjálfur sóst eftir framhaldsráðningunni og það hafi verið ákveðið að leggja ekki stein í götu hans að svo komnu máli.

Í rannsóknarskýrslunni, er meðal annars fjallað um einkavæðingu bankanna; hugmyndir Halldórs um alþjóðlega fjármálamiðstöð hér á landi, hagstjórnarmistök og fleira.

Nýlega bárust fréttir af því að fyrirtæki sem að stórum hluta er í eigu fjölskyldu Halldórs hafi fengið yfir tvo og hálfan milljarð króna afskrifaðan í Landsbankanum. Það varð fjölmörgum tilefni til að mótmæla við bankann í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×