Enski boltinn

Gerrard: Reynum að komast í Meistaradeildina í gegnum bakdyrnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool. Mynd/AFP
Steven Gerrard lofar því að Liverpool-liðið ætli að láta topplið Chelsea hafa fyrir hlutunum í leik liðanna á Anfield á sunnudaginn. Chelsea er með eins stigs forskot á Manchester United þegar tvær umferðir eru eftir og að marga mati er Liverpool nú það eina sem stendur á milli Chelsea og enska meistaratitilsins.

Sumir stuðningsmenn Liverpool væru jafnvel tilbúnir að fórna þessum leik til þess eins og Manchester United næði ekki metinu af þeim yfir flesta meistaratitla í ensku deildinni. Bæði félög hafa nú unnið enska titilinn 18 sinnum.

„Við eigum tvo leiki eftir og ætlum að reyna að taka úr þeim sex stig og reyna með því að komast í Meistaradeildina í gegnum bakdyrnar," sagði Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, við The Sun.

„Ef við náum þessum sex stigum þá er alltaf möguleiki á að liðin fyrir ofan okkur misstígi sig. Við verðum bara að reyna að halda pressunni á þeim," sagði Gerrard.

„Við munum ekki gefast upp en það væri heimska hjá mér að segja að þetta muni gerast. Það er samt mikilvægt að vera bjartsýnn. Við megum heldur ekki gleyma því að Everton er að anda niður hálsmálið okkar og við viljum svo sannarlega ekki að þeir endi fyrir ofan okkur," sagði Steven Gerrard.

Everton er fimm stigum á eftir Liverpool og gæti því náð þeim í síðustu tveimur umferðunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×